Home

Saga Salsa Iceland

Dansað með Íslendingum síðan 2003

Draumurinn um Salsa Iceland er orðinn að veruleika. Umbreyting leyndrar óskar um samfélag dansandi vina yfir í griðastað frá lífsins ögrunum og metnaðarfullan dansskóla er orðin. Hún hefur dekkað tæpa 2 áratugi og falið í sér þrotlausa vinnu hóps af fólki og ómetanleg ævintýri þeirra saman.

Dansskólinn býður gæða kennslu og metnaðarfullt námsbrautarkerfi í salsa, sem styður vaxandi social danssamfélag í Reykjavík.

Fyrir þetta þakka ég á hverjum degi og minnist allra þeirra sem lagt hafa hönd á plóg: nemendur, kennarar, gestakennarar og allir hinir sem hafa séð af tíma ykkar og framlagi í gegnum árin. Án ykkar væri Salsa Iceland ekki til. Takk.

 

Edda Blöndal, stofnandi og skólastjóri

2003

Upphafið

Edda Blöndal hóf Salsa Iceland ævintýrið í salsafráhvörfum við heimkomu til Íslands eftir búsetu í Stokkhólmi. Sýnin var og er að kynna töfra salsadansa fyrir Íslendingum og efla uppbyggingu salsasamfélags á Íslandi.

Social dansar eru framkvæmdir af einum aðila sem stýrir og öðrum sem fylgir, og einna helst í „social umhverfi“ eins og danskvöldum.

Í upphafi myndaðist hefð fyrir salsaveislum með sameiginlegri máltíð í heimahúsi. Þvínæst var stofan tæmd og dansað fram á nótt. Þarna skapaðist einstök stemmning með persónulegu andrúmslofti og dansgleði, og markar þetta upphaf salsasamfélagsins á Íslandi.

Salsa Iceland fjölskyldan hefur það að markmiði að halda í þetta persónulega og nána andrúmsloft á danskvöldum sínum.

2006

Uppbyggingin

Með tímanum stækkuðu veislurnar og fluttu á hina og þessa skemmtistaðina. Umfang starfsemi SalsaIceland jókst töluvert upp úr 2006 með samstarfi við SalsaAkademien í Stokkhólmi. Stofnendurnir, þau Marina og Ibi, voru á hátindi ferils síns sem atvinnudansarar, margfaldir verðlaunahafar af HM. Þau féllu fyrir nemendum, landi og þjóð, og eru enn þann dag í dag reglulegir gestakennarar Salsa Iceland.
Þau Edda, Marina og Ibi mótuðu námsskrá og sameinuðust í sýn um metnaðarfullan skóla sem býður hágæða kennslu samboðna erlendu danssamfélagi.

2008

Pílagrímsferð til Kúbu

 

Árið 2008 skellti hópur vina úr Salsa Iceland sér í pílagrímsferð til Kúbu þar sem þau dýfðu sér til botns í menningu og sögu salsadansins. Hreint ógleymanleg ferð sem fjölmargir salsadansarar hafa endurtekið á Íslandi við miklar vinsældir.

Liðsstyrkur

Árið 2009 gekk frítt föruneyti til liðs við Eddu í Salsa Iceland fjölskylduna. Þetta voru þau Mike frá Guatemala og Sandra konan hans, Þórunn Óskarsdóttir og Ólafur Jörgen Hansson. Fleytunni Salsa Iceland hafði verið ýtt úr vör og saman stýrði þessi hópur skútunni í átt að takmarkinu: opnun eigin stúdíós.

2010

Salsa Iceland opnar eigið studio

Árið 2010 opnaði Salsa Iceland sitt eigið stúdíó á Grensásvegi en þessi tími einkenndist af vaxtarverkjum, mikilmennskubrjálæði, vinnu, natni, ástúð og samhentu átaki SI fjölskyldunnar ásamt fjölda nemenda og vina.

2011

Íslandsmet slegið á Austurvelli

Sumarið 2011 stóð Salsa Iceland fyrir salsa fjöldadansi af kúbönskum uppruna (Rueda de Casino) á Austurvelli sem endaði með  Íslandsmeti í Salsa – Rueda de Casino með yfir 100 þátttakendum.

Menningarnótt

Árið 2011 gerðist dagskrá SalsaIceland á Lækjartorgi fastur liður í dagskrá Menningarnætur Reykjavíkurborgar. Síðan þá hefur Salsa Iceland staðið vaktina með kennslu og sýningum fyrir gesti og gangandi á Lækjartorgi.

2012

Alþjóðlegi dansdagurinn

Salsa Iceland stóð fyrir social- dansdegi á árinu 2012 í samstarfi við Háskóladansinn, Tangóævintýrafélagið, Lindy Ravers og Salsa Mafíuna. Dagurinn var haldinn í tilefni alþjóðlega Dansdagsins sem er 29. apríl og gekk frábærlega upp. Þetta var í fyrsta skipti sem þessi smærri danssamfélög sameinuðustu undir nafni social dansa.

2013

Dans Dans Dans

Árið 2013 stimpluðu þau Mike og Snæfríður salsa inn í vitund landsmanna með glæsilegri þátttöku í dansþættinum Dans Dans Dans. Atriðið styrkti enn frekar starfsemi sýningarteyma hjá Salsa Iceland, sem hafði þá verið fastur liður í starfseminni um nokkurt skeið.

Liðsstyrkur frá Kúbu

Stækkandi nemendahópur kallaði á uppfærða námsskrá skólans og farið var í gagngerar umbreytingar á námskeiðsframboði. Fólu þær breytingar einna helst í sér viðbót – metnaðarfulla námslínu í kúbönsku salsa. Ernesto Camilo, lærður nútímadansari frá Kúbu gekk um þetta leyti til liðs við Salsa Iceland sem kennari í kúbönsku salsa og Afró-Kúbönskum dönsum.

2014

2015 stimplaði SalsaIceland sig inn í skandinavíska salsasamfélagið með þátttöku í sýningarstörfum og kennslu. Nemendur skólans fjölmenntu og studdu sitt fólk á sviði og danstímum á Scandinavian Salsacongress, Love Dance og fleiri hátíðir á næstu árum.

2016

Sigurvegarar

2016 var frábært ár hjá Salsa Iceland en þá keppti sýningarteymi frá Salsa Iceland í hinni vinsælu Stargate keppni áhugaliða í social dönsum. Dansarar voru þau Edda Blöndal, Mike Sánchez, María Carrasco, Snæfríður Halldórsdóttir, Helen Hergeirsdóttir, Inga María Backman og Hildur Ketilsdóttir.

Salsa Iceland stóð uppi sem sigurvegari 20 liða alls staðar að úr heiminum, og vann sér inn þátttökurétt í  lokakeppni Evrópumóts áhugaliða í Düs­seldorf. Þar nældu þau sér í 3 sætið og stimpluðu SalsaIceland á salsakortið í Evrópu.

2017

Midnight Sun Salsa

Salsa Iceland Norðurlandameistarar

Árið 2017 markar tímamót hjá Salsa Iceland með tilurð Midnight Sun Salsa hátíðararinnar. Að erlendri fyrirmynd eru Midnight Sun atburðirnir röð alþjóðlegra viðburða þar sem stærstu stjörnum okkar bransa er boðið til Íslands til kennslu og sýninga, eða við ferðumst saman erlendis til dansiðkunar.

Við þetta tækifæri gerðist SalsaIceland fjölskyldan gestgjafi Norðurlandamótsins. Sýningarteymi Salsa Iceland sigraði, hlutu titilinn Norðurlandameistarar og áunnu sér sýningarrétt á aðalgólfi Berlin Salsa Congress, eins stærsta vettvangs social dansheimsins. Dansarar voru þær Snæfríður Halldórsdóttir, María Carrasco, Hildur Ketilsdóttir og Helen Hergeirsdóttir.

2019

Midnight Sun viðburður ársins 2019 var ógleymanleg ferð 30 lífsglaðra SalsaIceland félaga til Kúbu í fylgd þeirra Osbanis Tejeda og Annetta Kepka.  Eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði var ferðin í alla staði hin magnaðasta!

Í dag

SalsaIceland starfsemin hefur stigmagnast úr einstökum helgarnámskeiðum í stöðuga starfsemi á breiðu litrófi allan ársins hring. Fjölbreytt og metnaðarfull námskeið, danskvöld, sérsniðin hópefli, sýningar og alþjóðlegir dansviðburðir eru meðal þess sem við bjóðum upp á.

SalsaIceland er leiðandi fyrir önnur danssamfélög sem eru vaxandi. Kenndir eru þrír stílar af salsa á sex getustigum, einstaklingstímar til styrkingar (lady style og men style) auk annarra tengdra dansa á borð við Chachacha, Afrokúbanskir dansar, Kúbönsk Rumba, Rueda de Casino og fleira.

Meðal kennara Salsa Iceland eru dansarar sem hafa sérhæft sig í salsa, auk atvinnudansara úr röðum nútímadans og samkvæmisdönsum. Þeir kenna allir eftir metnaðarfullri og ígrundaðri námsskrá Salsa Iceland.

Salsa Iceland stendur fyrir sínum frægu salsadanskvöldum með ókeypis prufutíma fyrir byrjendur alla miðvikudaga allan ársins hring.

Sýningarteymi Salsa Iceland kenna/sýna á árshátíðum, taka á móti hópum í gæsanir/steggjanir, eða gera flotta innkomu í veislur sem og brúðkaup. Kennsla fer fram í Karatefélaginu Þórshamri, Brautarholti 22, eða í sal Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6. Danskvöldin fara fram á Iðnó, Sólon, eða B5.

Við tökum vel á móti þér 🙂